Verkefni:

Skipulag miðbæjarsvæðisins á Hvolsvelli 2016

Nýjar vinnutillögur um miðbæjarskipulag birtar

Rangárþing eystra
 
Rangárþing eystra skrifar fyrir 1 ári

Eftirfarandi tillögur eru niðurstöður umræðna í vinnuhóp um miðbæjarskipulag í samstarfi við landslagsarkitekta hjá Landmótun sf.. Í vinnuhópnum situr sveitarstjórn Rangárþings eystra ásamt Antoni Kára Halldórssyni, skipulagsfulltrúa og fékk hópurinn nokkrar tillögur til skoðunar. Eftir vandlega yfirferð og umræður var hægt að útbúa þær tvær tillögur sem hér liggja fyrir. Ákveðið var að gera tillögurnar aðgengilegar fyrir íbúa sveitarfélagsins á íbúavefnum því nauðsynlegt er að fá hugmyndir og álit íbúa inn í þá flóknu vinnu sem skipulag miðbæjarsvæðisins á Hvolsvelli er. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hvetur íbúa til að láta skoðun sína í ljós, velta á milli sín hugmyndum og nýta hér tækifærið til að tjá sig um tillögurnar.

Rétt er að geta þess að tillögurnar sem hér birtast eru aðeins vinnutillögur og geta því tekið breytingum þegar lengra kemur í skipulagsferlinu.

Tillaga 1:

Þjóðvegur:

Vegur um Hvolsvöll er breyttur með því að búa til léttar sveigjur til að ná niður umferðarhraða. Með því skapast einnig rými fyrir gróður og stíga meðfram þjóðveginum. Vegtengingum við þjóðveg er fækkað um tvær til þess að bæta umferðaröryggi.

Íbúðarsvæði:

Götur í hverfinu eru botnlangar og hverfið er 15 km hverfi með vistgötum. Leitast verður við að nýta blágrænar ofanvatnslausnir við hönnun hverfisins með mismunandi yfirborðsefnum sem geta verið gegndræp að hluta. Fjölbreyttar húsagerðir, einbýlis-, keðjuhús, par- eða lítil fjölbýlishús með allt að 40-46 íbúðum. 1-3 hæðir þar sem þriðja hæðin er inndregin eða ris. Sveigjanleiki í uppbyggingu þar sem hægt er að áfangaskipta hverfinu í tvo hluta. Verslun og þjónusta á jarðhæðum við Hlíðarveg.

Verslun- og þjónusta sunnan þjóðvegar:

Heilsteypt hverfi þar sem lögð er áhersla á grænt svipmót þar sem gróður og ofanvatnslausnum verði beitt. Mismunandi lóðastærðir og hús allt að 3 hæðir þar sem þriðja hæðin er inndregin eða með risi.

Hátíðarsvæði:

Svæðinu er skipt upp eftir rýmum og notkunarmöguleikum. Leitast er við að skapa umhverfi sem hentar öllum aldurshópum á öllum árstíðum og á að geta nýst fyrir stærri og minni viðburði.

Tillaga 1
Sjá tillögu 1 betur hér.

Tillaga 2:

Þjóðvegur:

Tillagan gerir ráð fyrir að vegurinn verði tekinn í sundur á nokkrum stöðum með mismunandi stórum miðeyjum sem hægir á umferð og setur sérstakan svip á götumyndina. Beggja vegna vegar skapast rými fyrir gróður og stíga. Vegtengingum við þjóðveg er fækkað um tvær til þess að bæta umferðaröryggi.

Íbúðarsvæði:

Gegnumakstur í gegnum vistgötu, 15 km hverfi. Leitast verður við að nýta blágrænar ofanvatnslausnir við hönnun hverfisins með mismunandi yfirborðsefnum sem geta verið gegndræp að hluta. Fjölbreyttar húsagerðir, einbýlis-, keðjuhús, par- eða lítil fjölbýlishús með allt að 35-37 íbúðum. 1-3 hæðir þar sem þriðja hæðin er inndregin eða ris. Sveigjanleiki í uppbyggingu þar sem hægt er að áfangaskipta hverfinu í tvo hluta. Verslun og þjónusta á jarðhæðum við Hlíðarveg.

Verslun- og þjónusta sunnan þjóðvegar:

Heilsteypt hverfi þar sem lögð er áhersla á grænt svipmót þar sem gróður og ofanvatnslausnum verði beitt. Mismunandi lóðastærðir og hús allt að 3 hæðir þar sem þriðja hæðin er inndregin eða með risi. Gegnumakstur er í gegnum hverfið.

Hátíðarsvæði:

Svæðinu er skipt upp eftir rýmum og notkunarmöguleikum. Leitast er við að skapa umhverfi sem hentar öllum aldurshópum á öllum árstíðum og á að geta nýst fyrir stærri og minni viðburði.

Tillaga 2
Sjá tillögu 2 betur hér.

Íbúar eru hvattir til að kynna sér tillögurnar nánar í listanum yfir vinnslutillögur, sem er að finna undir niðurstöður hér á síðu verkefnisins. Þar er einnig hægt að sjá samanburð á tillögunum tveimur auk þess sem bera má hvora tillögu fyrir sig saman við gildandi skipulag og loftmynd af svæðinu eins og það er í dag.

Nú er um að gera að tjá sig um tillögurnar almennt eða einstaka atriði í þeim. Ef athugasemdir eða hugmyndir eiga við um aðra tillöguna fremur en hina er gott að nota textaboxið eða "Fylgja eftir" takkann á síðu þeirrar tillögu, en ef þær eiga við báðar tillögurnar jafnt þá er tilvalið að nota sömu möguleika hér fyrir neðan. Fyrir viðameiri athugasemdir er einnig bent á möguleikann að "Fylgja eftir" með grein. Á síðu tillagnanna sem vísað er í hér fyrir ofan er hægt að smella á takkana "Líst vel á" og "Líst ekki á" en með þeim hætti er hægt að gefa álit sitt á hvorri tillögu fyrir sig án þess að það birtist undir nafni. Það er góð leið til að láta álit sitt í ljós heilt yfir en fyrir framhald vinnunnar vonumst við eftir að fá ábendingar í athugasemdum um einstök atriði, bæði það sem betur má fara og það sem ykkur líst vel á og viljið að haldist óbreytt í endanlegri útkomu.

Umræða (4)
 
Skráir ummæli...
 1. Guðmundur Úlfar Gíslason · fyrir 1 ári ·

  Mér finnst þessar tillögur eiginlega vera alveg eins. Líst samt bara ágætlega á þetta. Mætti taka það sem er gott úr báðum og búa til eina flotta. Er sammála þessu með undirgöngin. þurfa að vera austan við Hvolsvöll. En eiga ekki gömlu hesthúsin að víkja?

   
  Skráir svar...
 2. Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir
   
  Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir · fyrir 1 ári ·

  Flottar tillögur - mér líst betur á eyjurnar milli akgreina til að hægja á umferðinni - það er fallegra - en ég held við komumst aldrei upp með að hafa ekki hringtor þá sérstaklega autar í þorpinu. Hringtorg sem gæti tengt þjóðveg 1, Dufþaksbraut og Hlíðarveg saman. Eins er ég sammála Hörpu um mikilvægi þess að fá undirgöng undir þjóðvegin .

   
  Skráir svar...
 3. Harpa Mjöll Kjartansdóttir · fyrir 1 ári ·

  Heilt yfir líst mér mjög vel á þær tillögur sem komnar eru og lofar þetta verkefni góðu. Það eru hins vegar tvær spurningar sem sitja eftir þegar ég renn í gegnum þetta. Hvað verður um Dufþaksbrautina og aðgengi að þjónustu og verslun á því svæði? Hvernig er svo með reiðstíga og öryggi hestamanna? Nú eru tvö svæði með hesthúsum og þjóðvegurinn er þar á milli. Væri ekki ráð að huga að undirgöngum undirgöngum undir þjóðveginn t.d. Sem gæti mögulega nýst bæði gangandi og ríðandi íbúum. Ég sæi það þá fyrir mér á svipuðum slóðum og Dufþaksbrautin er til að tengja heshúsahverfin saman…. en annars bara hugmynd. 😊 Hlakka til að sjá meira.

   
  Skráir svar...
 4. Ísólfur Gylfi Pálmason · fyrir 1 ári ·

  Hvet þá sem áhuga hafa á skipulaginu að koma skoðunum sínum á framfæri .
  Þetta eru enn tillögur og geta að sjálfsögðu breyst.

   
  Skráir svar...
011624
MeðmæliSkoðaðUmmæli
Skrifa nýja grein
Ábendingar og aðstoð

Ábendingar sendist á netfangið re@ibuavefur.is

Beta útgáfa